Elvar Ingi í Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við sóknarmanninn Elvar Inga Vignisson. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í dag.

Elvar Ingi kemur til Selfoss frá ÍBV en hann lék sextán leiki með Eyjamönnum í Pepsi-deildinni í fyrra og skoraði tvö mörk.

Elvar Ingi er 22 ára sóknar- og kantmaður. Hann er uppalinn í Aftureldingu en lék með Fjarðabyggð í 1. deildinni sumarið 2015.

„Ég er mjög ánægður með að hafa fengið Elvar Inga til liðs við okkur. Hann hefur alltaf þótt mjög efnilegur leikmaður en þetta er strákur sem ég hef fylgst með síðan hann labbaði á höndum inn á fyrstu 7. flokks æfinguna hjá mér í Mosfellsbæ,“ segir Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss.

„Elvar Ingi bætir miklu við liðið okkar og er óhefðbundinn leikmaður. Hann er gríðarlega stór og sterkur og ekki kallaður Uxinn að ástæðulausu. Hann mun nýtast okkar leikstíl vel og koma til dæmis sterkur inn í uppsettu leikatriðin okkar.“

Fyrri greinHamar steinlá í oddaleiknum
Næsta grein„Við spiluðum frá­bær­lega í kvöld“