Eltu meistarana eins og skugginn

Sunnlenskur veggur! Roberta Stropé og Tinna Soffía Traustadóttir sækja að marki Fram en Perla Ruth Albertsdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir eru til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýliðar Selfoss tóku á móti Íslandsmeisturum Fram í hörkuleik í Olísdeild kvenna í handbolta í Set-höllinn á Selfossi í dag.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en þá skoraði Fram fjögur mörk í röð og breytti stöðunni í 5-9. Selfoss náði að minnka muninn í tvö mörk en aftur tóku Framarar við sér og leiddu 14-18 í hálfleik. Fram leiddi allan seinni hálfleikinn en Selfyssingar eltu eins og skugginn og þegar rúm mínúta var eftir fengu heimakonur færi á að minnka muninn í eitt mark. Það tókst ekki, Fram átti lokaorðið og sigraði 27-30.

Roberta Stropé var markahæst Selfyssinga með 11 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 9/5, Tinna Soffía Traustadóttir 3 og Ásdís Þóra Ágústsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir skoruðu báðar 2 mörk. Cornelia Hermansson átti nokkrar ágætar vörslur í marki Selfoss, varði 13/1 skot og var með 30,2% markvörslu.

Selfoss er áfram í 7. sæti deildarinnar, með 2 stig en Fram er í 3. sæti með 6 stig.

Fyrri greinEngar varnir þegar ungmennaliðið skellti Fjölni
Næsta greinGlæsilegt félagsheimili SVFS heitir Víkin