Ellefu unglingar af HSK svæðinu í Úrvalshópi FRÍ

Fulltrúar HSK/Selfoss í úrvalshópi FRÍ. Á myndina vantar Ísold Össu. Ljósmynd/HSK

Ellefu unglingar af sambandssvæði HSK hafa verið valdir í nýjan Úrvalshóp Frjálsíþróttasambands Íslands 15-19 ára.

Alls eru 49 unglingar í hópnum og af þessum 11 Sunnlendingum koma níu frá Umf. Selfoss, einn frá Dímon og einn frá Garpi en öll æfa þau hjá frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss.

Úrvalshópurinn er valinn út frá árangri á utanhússtímabilinu í ár, en fjölgað getur í hópnum eftir að komandi innanhússtímabilinu lýkur.

Markmiðið með úrvalshópnum er er að skapa umhverfi þar sem íþróttir snúast um fleira en keppni og árangur. Ungmenninn fá ekki aðeins tækifæri til að þróast sem íþróttamenn heldur einnig tækifæri til að eignast vini, skapa sér heilbrigðan lífsstíl og læra að sigrast á sjálfum sér með því að setja sér raunhæf markmið og áætlanir.

Fulltrúar Umf. Selfoss í hópnum eru Álfrún Dilja Kristínardóttir, sleggjukast, Bryndís Embla Einarsdóttir, kúluvarp og spjótkast, Daníel Breki Elvarsson, spjótkast, Eydís Arna Birgisdóttir, 400 m hlaup, Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, 300 m grindahlaup, hástökk, kúluvarp og spjótkast, Hugrún Birna Hjaltadóttir, 300 m hlaup, Ísold Assa Guðmundsdóttir, hástökk og kúluvarp, Vésteinn Loftsson, kringlukast og Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, 800 m hlaup. Frá Garpi kemur Helga Fjóla Erlendsdóttir, 80 m grindahlaup og hástökk og frá Dímon er það Ívar Ylur Birkisson, 100 m grindahlaup, 300 m grindahlaup og hástökk.

Fyrri greinMysingur er vanmetin gæðafæða
Næsta greinSterkur útisigur Þórs – Hamar tapaði