Ellefu Íslandsmeistaratitlar til HSK/Selfoss – Eva María setti mótsmet

Eva María Baldursdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Keppendur HSK/Selfoss unnu níu Íslandsmeistaratitla í frjálsum íþróttum á Meistaramóti Íslands 15-22 ára innanhúss sem fram fór í Laugardalshöllinni um helgina.

HSK/Selfoss varð sömuleiðis Íslandsmeistari félagsliða í tveimur aldursflokkum, 15 ára stúlkna og 15 ára pilta og vann örugga sigra í báðum flokkum. 15 ára stúlknaliðið hlaut 102 stig en í 2. sæti varð FH með 53 stig. 15 ára piltarnir hlutu 64 stig en Ármann varð í 2. sæti með 22 stig.

Í heildarstigakeppninni varð HSK/Selfoss í 3. sæti með 240 stig, skammt á eftir FH sem var í 2. sæti með 252,5 stig en ÍR sigraði heildarstigakeppnina með yfirburðum, ÍR-ingar hlutu 367,5 stig.

Mótsmet í hástökki
Eva María Baldursdóttir setti mótsmet þegar hún sigraði í hástökki í flokki stúlkna 18-19 ára. Eva María tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með stökki upp á 1,76 m. 

Álfrún Diljá Kristínardóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari en hún sigraði í kúluvarpi og 300 m hlaupi í flokki 15 ára stúlkna, kastaði 11,49 í kúlunni og hljóp 300 m á 46,51 sek.

Í 15 ára stúlknaflokknum varð Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir Íslandsmeistari í 1.500 m hlaupi, hljóp á 6:08,57 mín og í sama flokki varð sveit HSK/Selfoss Íslandsmeistari í 4×200 m boðhlaupi á tímanum 1:58,79 mín. Sveitina skipuðu Álfrún Diljá, Þórhildur Arnarsdóttir, Guðlaug Birta Davíðsdóttir og Hanna Dóra Höskuldsdóttir.

Í flokki 20-22 ára stúlkna varð Elín Karlsdóttir Íslandsmeistari í 3.000 m hlaupi, en hún er 16 ára gömul. Elín hljóp á 13:09,15 mín.

Í flokki 15 ára pilta unnust tveir Íslandsmeistaratitlar. Daníel Breki Elvarsson sigraði í þrístökki með stökk upp á 11,83 m og í kúluvarpi sigraði Oliver Jan Tomczyk en hann kastaði 13,46 m.

Þá varð Goði Gnýr Guðjónsson Íslandsmeistari í 800 m hlaupi í flokki 16-17 ára pilta en hann hljóp á 2:07,39 mín og hjó nærri héraðsmetinu í þessum aldursflokki, sem hann á sjálfur.

Katla með öfluga keppendur
Ungmennafélagið Katla sendi þrjá keppendur til leiks á mótinu. Egill Atlason Waagfjörð tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í 1.500 m hlaupi í flokki 15 ára pilta, hljóp á 5:33,84 mín og Birna Sólveig Kristófersdóttir vann til tveggja bronsverðlauna í flokki 18-19 ára stúlkna, í 60 m grindahlaupi og stangarstökki. Umf. Katla varð í 9. sæti í heildarstigakeppninni með 25 stig.

Alls unnu keppendur HSK/Selfoss 36 verðlaun á mótinu, 9 gullverðlaun, 9 silfurverðlaun og 18 bronsverðlaun. Liðsmenn HSK/Selfoss bættu einnig sinn persónulega árangur í mörgum greinum en alls eru skráðar 65 bætingar á sunnlensku íþróttamennina á mótinu.

Álfrún Diljá Kristínardóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi og 300 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir varð Íslandsmeistari í 1.500 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Sveit HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari í 4×200 m boðhlaupi í flokki 15 ára stúlkna. (F.v. Guðlaug Birta, Álfrún Diljá, Hanna Dóra og Þórhildur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Elín Karlsdóttir varð Íslandsmeistari í 3.000 m hlaupi í flokki 20-22 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Daníel Breki Elvarsson, hér á 200 m spretti, varð Íslandsmeistari í þrístökki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Oliver Jan Tomczyk varð Íslandsmeistari í kúluvarpi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Goði Gnýr Guðjónsson varð Íslandsmeistari í 800 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Egill Atlason Waagfjörð varð Íslandsmeistari í 1.500 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lið HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari félagsliða í flokki 15 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lið HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari félagsliða í flokki 15 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÞórsarar styrkja stöðu sína
Næsta greinTvö óhöpp í Draugahlíðarbrekku