Ellefu HSK met sett um síðustu helgi

Ólafur Guðmundsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ellefu HSK met voru sett á unglingamóti HSK og héraðsmóti HSK í frjálsum íþróttum sem fram fóru í Kaplakrika í Hafnarfirði um síðustu helgi.

Á unglingamóti HSK 15-17 ára voru sett þrjú met. Eva María Baldursdóttir Selfossi bætti eigið met í hástökki um einn sentimetra í þremur aldursflokkum, flokki 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára, en hún stökk 1,73 metra.

Á héraðsmótinu voru sett átta met. Dagur Fannar Einarsson Selfossi bætti 23 ára gamalt met í 60 metra hlaupi í flokkum 18-19 ára og 20-22 ára. Dagur hljóp á 7,22 sek. Elías Ágúst Högnason átti gamla metið sem var 7,0 sek. með handtímatöku, sem jafngildir 7,24 sek með rafmagnstímatöku.

Árni Páll Hafþórsson, Þjótanda, bætti 41 árs gamalt met Markúsar Ívarssonar í 800 m hlaupi í flokki 30-34 ára, en hann hljóp á 2;14,23 mín. Gamla metið var 2;22,5 mín.

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, setti tvö met í flokki 30-34 ára kvenna. Hún hljóp á 8,23 sek í 60 m hlaupi og á 9,08 sek í 60 m grindahlaupi.

Loks þríbætti Ólafur Guðmundsson, Umf. Selfoss, HSK metið í kúluvarpi með 7,26 kg kúlu í flokki 50-54 ára. Lengsta kast Óla var 11,75 m. Guðmundur Nikulásson átti gamla metið.

Fjóla Signý Hannesdóttir setti tvö met í flokki 30-34 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Dagur Fannar sigraði í öllum þeim greinum sem hann tók þátt í á héraðsmótinu og setti tvö HSK met. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinArnaldur ráðinn í Eyrarbakkaprestakall
Næsta greinMiðflokkurinn vill fjölga verkefnum á landsbyggðinni