Ellefu gullverðlaun og eitt HSK met

Átta keppendur úr HSK/ Selfoss uppskáru vel á Akureyrarmótinu í frjálsum íþróttum sem fram fór um helgina.

Samtals hlaut hópurinn ellefu gullverðlaun, ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun auk þess sem eitt HSK met féll.

Dagur Fannar Magnússon, Selfossi, stóð sig frábærlega þegar hann bætti eigið HSK met í drengjaflokki í sleggjukasti með 7,26 kg sleggju um 40 cm með því að kasta sleggjunni 41,01 m og sigra.

Hin fjölhæfa Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, krækti sér í þrenn gullverðlaun, hún sigraði 100 m grindahlaup á tímanum 15,00 s, langstökk með 5,33 m og hástökk þegar hún vippaði sér yfir 1,59 m.

Þórhildur Helga Guðjónsdóttir, Selfossi, sigraði bæði í 100 m og 200 m hlaupi. Hún hljóp 100 m á 12,58 s sem er undir gildandi HSK meti hennar í stúlknaflokki sem er 12,62 s en vindur reyndist aðeins yfir leyfilegum mörkum. Í 200 m hlaupinu hljóp hún á sínum ársbesta tíma þegar hún kom langfyrst í mark á tímanum 26,08 s.

Haraldur Einarsson, Vöku, stóð sig mjög vel er hann sigraði bæði í 100 m og 200 m hlaupi. Hann kom fyrstur í mark á tímanum 11,50 s í 100 m og á 23,31 s í 200 m hlaupinu. Að auki krækti hann sér í silfurverðlaun með því að stökkva 6,20 m í langstökki.

Agnes Erlingsdóttir, Laugdælum, nældi sér í tvenn gullverðlaun. Hún sigraði í 400 m hlaupi á tímanum 61,99 s sem er bæting um rúma sekúndu og að auki sigraði hún í 800 m hlaupi á tímanum 2;32,83 mín.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Selfossi, hljóp undir gildandi HSK meti sínu í 200 m hlaupi þegar hún hljóp á tímanum 27,62 s sem er tæpri sekúndu betri tími en HSK met hennar og sigraði hún í flokki 13-14 ára. Hún hljóp 100 m líka mjög vel er hún varð í 4. sæti í kvennaflokki á tímanum 13,26 s en best hafði hún hlaupið áður á 13,50 s. Vindmæling var hins vegar yfir leyfilegum mörkum. Í 400 m hlaupi bætti hún sig um 2 sekúndur er hún kom fjórða í mark í kvennaflokki á tímanum 67,50 s. Að lokum bætti Sólveig Helga sig í langstökki er hún stökk 4.55 m og hlaut bronsverðlaun að launum í flokki 13-14 ára.

Jóhann Erlingsson, Laugdælum, keppti í kúluvarpi og sleggjukasti í karlaflokki og stóð sig mjög vel þrátt fyrir að honum tækist ekki að bæta sig að þessu sinni hann kastaði kúlunni 10.40 m og sleggjunni 18.30 m.

Fyrri greinSvala með erindi í máli og myndum
Næsta greinOddvitinn bænheyrður