Ægismenn voru fljótir að jafna sig á tapinu gegn KFG í neðrideildarbikarnum í síðustu viku. Þeir tóku á móti KFG í 2. deildinni í dag og skoruðu sex mörk í góðum sigri.
Garðbæingar urðu fyrri til að skora í dag en þeir komust yfir á 3. mínútu. Ægir svaraði því vel og Dimitrije Cokic, Atli Rafn Guðbjartsson og Jordan Adeyemo skoruðu allir á fjórtán mínútna kafla og staðan var 3-1 í hálfleik.
Þegar korter var liðið af seinni hálfleik varð Stefan Dabetic fyrir því óláni að setja boltann í eigið net en tveimur mínútum síðar rétti Dimi Cokic hlut Ægismanna aftur og staðan orðin 4-2. Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði á 78. mínútu og Dabetic bætti svo við glæsilegu marki úr aukaspyrnu á 82. mínútu. Fjórum mínútum fyrir leikslok náði KFG að klóra í bakkann. Lokatölur á Þorlákshafnarvelli 6-3.
Ægismenn eru í toppmálum þegar þrettán umferðum er lokið, með 29 stig í efsta sæti deildarinnar og fimm stiga forskot á næstu lið.
