Eldhugar og afreksfólk heiðrað

(F.v.) Ólafur Elí Magnússon sem tilnefndur var sem íþróttaeldhugi ársins, Elvar Þormasson, knapi ársins hjá Landsambandi hestamanna og Hafsteinn Valdimarsson, blakkarl ársins hjá Blaksambandi Íslands. Ljósmynd/Engilbert Olgeirsson

Kjöri íþróttamanns ársins 2023 var lýst við glæsilega athöfn á Hótel Hilton í Reykjavík í kvöld. Titillinn kom í hlut Gísla Þorgeirs Kristjánssonar, landsliðsmanns í handbolta, sem sigraði með yfirburðum í kjörinu.

Annar varð sundmaðurinn Anton Sveinn McKee, Selfyssingur í annan fótinn og tíunda í kjörinu varð sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir frá Hveragerði. Handknattleiksmaðurinn Bjarki Már Elísson varð 17. í kjörinu en 23 íþróttamenn hlutu atkvæði.

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, var tilnefndur sem þjálfari ársins en sá titill kom í hlut Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara karlaliðs Víkings í knattspyrnu.

Guðrún Kristín Einarsdóttir, Umf. Aftureldingu, var útnefnd Íþróttaeldhugi ársins 2023 en einn þriggja tilnefndra var Ólafur Elí Magnússon sem hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Dímon á Hvolsvelli í áraraðir.

Á hátíðinni í kvöld afhenti ÍSÍ einnig viðurkenningar til íþróttafólks sérsambanda ÍSÍ og þar áttu Sunnlendingar sína fulltrúa. Elvar Þormarsson, Hestamannafélaginu Geysi, er knapi ársins, Hafsteinn Valdimarsson, Íþróttafélaginu Hamri, er blakkarl ársins, Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir er sundkona ársins, Ölfusingurinn Ingibjörg Erla Grétarsdóttir er taekwondokona ársins og Selfyssingurinn Sara Árnadóttir er þríþrautarkona ársins.

 

Vaskir Rangæingar (F.v.) Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK, Örvar Ólafsson, sérfræðingur á sviði íþróttamála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Elvar Þormarsson, knapi ársins hjá LH, Guðmundur Gíslason, íþróttamaður ársins 1962 og 1969, Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, Ólafur Elí Magnússon, einn íþróttaeldhuga ársins og Samúel Örn Erlingsson, íþróttafréttamaður. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinÞór tapaði toppslagnum – Hamar með tvo nýja leikmenn
Næsta greinMyndsköpun í frábærum félagsskap