Stokkseyri og Uppsveitir töpuðu leikjum sínum í 5. deild karla í knattspyrnu í kvöld, í 1. umferð Íslandsmótsins.
Stokkseyri heimsótti RB í Reykjaneshöllina. Sindri Þór Ágústsson kom Stokkseyringum yfir á 36. mínútu með marki úr vítaspyrnu en RB jafnaði aðeins þremur mínútum síðar. Arilíus Óskarsson átti lokaorðið í fyrri hálfleik en hann kom Stokkseyringum aftur í forystu á markamínútunni og staðan var 1-2 í hálfleik. RB voru sterkari í seinni hálfleiknum og skoruðu þrívegis án þess að Stokkseyri næði að svara fyrir sig og lokatölur urðu 4-2.
Í Fagralundi í Kópavogi voru Uppsveitir í heimsókn hjá Smára. Smáramenn reyndust sterkari og þeir komust í 1-0 í fyrri hálfleik. Vésteinn Loftsson, afleysingamarkvörður Uppsveita, gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu skömmu fyrir leikhlé og því stóð 1-0 í hálfleik. Róðurinn þyngdist hjá Uppsveitamönnum í seinni hálfleiknum, Smári bætti við fjórum mörkum og sigraði að lokum 5-0.