„Ekki gaman að feisa soninn núna“

Sævar Þór Gíslason, framherji Selfoss, lofar marki í kvöld þegar Selfoss mætir Breiðablik í Pepsi-deild karla.

Sævar hefur skorað tvö mörk í átta deildarleikjum í sumar en þrátt fyrir markaþurrðina lá vel á honum þegar sunnlenska.is hitti hann á nuddbekknum í dag. Þar fór Trausti Sigurberg Hrafnsson, sjúkraþjálfari, „mjúkum“ höndum um Sævar sem glímt hefur við meiðsli á hæl síðustu vikur.

„Ég er allur að koma til. Það eru ennþá einhverjar bólgur í þessu en ég er nógu góður til að byrja í kvöld,“ segir Sævar en hælkoddi sprakk hjá honum í leiknum gegn Fram í 6. umferð. „Mér var sagt að þetta tæki tvær til fjórar vikur að verða gott og ég fór af stað eftir tvær vikur og líklega var það bara of snemmt,“ segir Sævar sem er ekki vanur að hlífa sér inni á vellinum.

Sævar skoraði í 1. umferð gegn Fylki og svo aftur í 5. umferð gegn Keflavík. Hann er sammála því að það sé kominn tími á næsta mark. „Það er löngu kominn tími á kallinn. Við höfum ekki verið að skapa mikið fram á við í síðustu leikjum og í raun ekki átt góðan leik síðan í Haukaleiknum í 3. umferð. En ég lofa marki í kvöld. Ég er í keppni við son minn og ég held að hann sé kominn með níu eða tíu mörk,“ segir Sævar og á þar við Bjarka Þór sem leikur með 5. flokki Selfoss. „Keppnin er ekkert svakalega hörð á milli okkar núna enda er ekki gaman að feisa hann þessa dagana,“ segir Sævar og hlær.

Leikurinn í kvöld leggst vel í framherjann en Selfyssingar þurfa að sanka að sér stigum í botnbaráttunni. Með sigri getur Breiðablik hins vegar komist í toppsæti deildarinnar. „Þeir fá ekki að gera það á Selfossi. Við þurfum að vera klókir að loka svæðum og reyna síðan að keyra á þá. Við þurfum að halda boltanum og sýna vinnusemi og samstöðu. Við skuldum okkar frábæru stuðningsmönnum og Selfyssingum öllum að ná í sigur,“ segir Sævar Þór að lokum.