Ekki ferðir til fjár hjá sunnlensku liðunum

Chancellor Calhoun-Hunter. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn og Selfyssingar töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Bæði lið léku á útivelli, Hrunamenn í Vogunum og Selfoss á Hornafirði.

Leikur Þróttar Vogum og Hrunamanna var mjög sveiflukenndur. Hrunamenn voru sterkari í 1. leikhluta en Þróttur kom til baka í 2. leikhluta og staðan var 42-42 í hálfleik. Þriðji leikhluti var í járnum en Þróttarar voru skrefinu á undan allan 4. leikhluta og héldu aftur af sóknum Hrunamanna. Lokatölur urðu 89-75.

Chancellor Calhoun-Hunter var allt í öllu í sókninni hjá Hrunamönnum, skoraði 36 stig og tók 9 fráköst. Aleksi Liukko skoraði 18 stig og tók 16 fráköst og þeir Arnar Dagur Daðason, Friðrik Heiðar Vignisson og Sam Burt skoruðu allir 6 stig en Burt tók 12 fráköst að auki.

Selfoss fór illa af stað
Það var mun minni spenna í leik Selfoss og Sindra á Hornafirði. Selfyssingar voru alls ekki á tánum í upphafi leiks og skoruðu aðeins 8 stig í 1. leikhluta. Staðan var 52-32 í hálfleik. Sindramenn höfðu örugg tök á leiknum í seinni hálfleik og sigruðu að lokum 97-71.

Tykei Greene var stigahæstur Selfyssinga með 15 stig, Vojteck Novák skoraði 12, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 9 stig og tók 11 fráköst og Tristan Máni Morthens skoraði 8 stig.

Selfoss er í 9. sæti deildarinnar með 10 stig en Hrunamenn í 11. sæti með 6 stig.

Fyrri greinSelfoss fær hvatningarverðlaun í dómaramálum
Næsta greinBarbára kom Blikum á bragðið