Ekki COVID-smit hjá Selfyssingum

Úr leik Selfoss og Breiðabliks þann 18. júní síðastliðinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Leikmaður kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu sem fór í sýnatöku vegna COVID-19 í dag er ekki smitaður af kórónuveirunni. Niðurstaða sýnisins var neikvæð.

Sunnlenska.is greindi frá því fyrr í dag að æfingu kvennaliðsins í kvöld og leik hjá 2. flokki kvenna hafi verið frestað vegna gruns um COVID-19 smit hjá leikmanni meistaraflokks.

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss, staðfesti í samtali við sunnlenska.is að niðurstaða sýnatökunnar hjá leikmanninum hafi verið neikvæð.

Hins vegar eru tveir leikmenn kvennaliðs Selfoss komnir í sóttkví eftir að hafa sótt viðburð í Kópavogi um síðustu helgi. Þær verða í sóttkví næstu átta daga og missa því af leik Stjörnunnar og Selfoss í Pepsi Max deildinni á miðvikudagskvöld.

Fyrri greinNýi leikskólinn heitir Goðheimar
Næsta greinHamrarnir höfðu betur gegn Hamri