„Ekki þekktir fyrir að sparka í liggjandi mann“

Lárus Jónsson, þjálfari Hamars, var nokkuð ánægður með sína menn eftir 82-76 sigur á Haukum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

„Við spiluðum mjög vel í þrjá leikhluta, en náðum samt ekki markmiðum okkar. Við ætluðum að halda þeim í 65 stigum eða minna. Þeir hitnuðu í fjórða leikhluta og eru með mjög gott lið,“ sagði Lárus í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Þjálfarinn var ánægður með liðsframlagið í leiknum og nefndi þar sérstaklega Jerry Hollis sem átti mjög fínan leik.

Þrátt fyrir að hafa undirtökin og ná góðu forskoti í 3. leikhluta náði Hamar ekki að hrista Haukana endanlega af sér og þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum gat allt gerst í stöðunni 79-73.

„Þeir bara hitnuðu í fjórða leikhluta og eru með mjög gott lið. Við vorum góðir fram að því og þetta er leikur sem fer upp og niður og við erum ekki þekktir fyrir að sparka í liggjandi mann hér í Hveragerði,“ sagði Lárus.

Hamar hefur unnið báða leiki sína í deildinni og Lárus segist þokkalega ánægður með hvar liðið er statt í upphafi leiktíðar.

„Við gætum verið aðeins betri. Við erum búnir að leggja mikla áherslu á vörnina og hún er nokkuð góð auk þess sem við áttum gott undirbúningstímabil og fengum Kanann snemma, það skiptir miklu máli í upphafi móts.“