Ekkert gekk í seinni hálfleik

Eftir jafnan leik í fyrri hálfleik gaf Selfoss mikið eftir í þeim síðari þegar Grótta kom í heimsókn í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Lokatölur urðu 18-27.

Selfoss skoraði tvö fyrstu mörk leiksins en Grótta breytti stöðunni í 3-4 og eftir það var jafnræði með liðunum allt þar til undir lok fyrri hálfleiks. Grótta skoraði þrjú síðustu mörkin í fyrri hálfleik og tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks og höfðu þá breytt stöðunni úr 9-10 í 9-15.

Þar með var grunnurinn að sigri gestanna lagður því Selfossliðið komst ekki í gírinn eftir þetta og Grótta jók enn á forskotið. Munurinn var orðinn tíu mörk þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum, 14-24, en Selfyssingar minnkuðu muninn í níu mörk um leið og lokaflautan gall.

Þuríður Guðjónsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Dagmar Øder Einarsdóttir skoraði 3 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir, Thelma Sif Kristjánsdóttir og Hildur Øder Einarsdóttir 2, Kara Rún Árnadóttir 2/1 og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 9 skot í marki Selfoss og var með 28% markvörslu og Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 3 skot og var með 43% markvörslu.

Fyrri greinLið FSu/Hrunamanna fékk eldskírnina
Næsta greinStyttan af Páli komin á nýjan stað