Ekið um Skjaldbreiðarveg og Uxahryggi

Fjórða umferð í Íslandsmótinu í rallakstri fer fram laugardaginn 26. september næstkomandi. Keppnin hefst við Geysi í Haukadal klukkan 10:00 og verður ekið um Skjaldbreiðarveg og Uxahryggi.

Nokkur ár eru síðan keppt hefur verið á línuveginum við Skjaldbreið og er ljóst að tilhökkun er mikil meðal keppenda að spreyta sig á þessari sérleið. Hún er um 42 km löng og telst lengsta rallýleið sumarsins. Mun hún reyna á úthald og einbeitingu áhafna sem og ástand bifreiða.

Síðan færist keppnin nær Borgfirðingum en ekið verður yfir Uxahryggi eftir að komið er út við Kaldadalsveg. Uxahryggir eru ökumönnum vel kunnugir því leiðin hefur verið ekin að jafnaði einu sinni á sumri undanfarin ár. Þegar komið er niður af Uxahryggjum munu áhafnirnar snúa við og aka báðar sérleiðirnar til baka.

Að akstri loknum halda keppendur á Korputorg í Reykjavík þar sem úrslit verða tilkynnt klukkan 16:30 en þar verður einnig rallýsýning hjá Planinu í tilefni þess að í ár eru 40 ár síðan fyrsta rallýkeppnin var haldin hérlendis. Er sýningin opin laugardag og sunnudag og aðgangur ókeypis.

Að þessu sinni eru þrettán áhafnir skráðar til leiks, má þar sjá bæði nýliða sem og þaulreyndar áhafnir. Sunnlendingurinn Sigurjón Þór Þrastarson mætir með frænda sínum Henning Ólafssyni en Henning varð fyrir því óhappi í síðustu umferð velta bíl sínum. Þeir mæta því á nýjum bíl og verður gaman að sjá hvernig þeim tekst til.

Helstu keppinautar þeirra, Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson mæta einnig galvaskir til leiks en þeir leiða nú Íslandsmótið með tæplega 15 stiga forskoti á Daníel Sigurðsson og Ástu Sigurðardóttur en þau systkin verða fjarri góðu gamni á laugardaginn.

Fjölskyldutengsl eru heilmörg meðal áhafna en feðgarnir Magnús Smári Ragnarsson og Ragnar Magnússon munu spreyta sig en einnig verða feðgarnir Arnkell Arason og Ari Arnórsson. Ein feðgin mæta einnig til leiks, þau Þórður Bragason og Ingibjörg Þórðardóttir sem og ein hjón, þau Ólafur Þór Ólafsson og Tinna Rós Vilhjálmsdóttir.

Fyrri greinVel heppnuð endurgerð í Múlakoti
Næsta greinHamar tapaði heima