Eitthundrað keppendur á aldursflokkamóti

Aldursflokkamót HSK í frjálsum íþróttum fór fram í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika um síðustu helgi. Umf. Selfoss sigraði örugglega í stigakeppni félaganna.

Lið frá ellefu félögum mættu til leiks og voru keppendur eitthundrað talsins á mótinu. Nýja frjálsíþróttahöllin iðaði því bókstaflega af lífi á meðan Sunnlendingar öttu kappi í hinum ýmsu keppnisgreinum frjálsra íþrótta.

Stigakeppni félaga fór þannig að Umf. Selfoss sigraði mótið með 344 stigum en í öðru sæti varð umf. Hrunamanna með 175,5 stig. Sá árangur Hrunamanna er einstaklega athyglisverður þar sem það var fyrst árið 2013 sem Hrunamenn byrjuðu að senda aftur keppendur á héraðsmót eftir langt hlé. Frjálsíþróttastarf í Hrunamannahreppi er því greinilega að blómstra og vonandi að fleiri félög taki sig til og rífi upp starfið. Í þriðja sæti heildarstigakeppninnar varð svo umf. Þór með 85,5 stig.

Þetta mót gefur góð fyrirheit fyrir Meistaramót Íslands 11-14 ára sem haldið verður 14. febrúar en þangað stefnum við í HSK á að senda öflugt lið.

Heildarstigakeppi félaga:

1. Umf. Selfoss 344 stig
2. Umf. Hrunamanna 175,5 stig
3. Umf. Þór 85,5 stig
4. Umf. Laugdæla 79,5 stig
5. Íþr.f. Dímon 78,5 stig
6. Umf. Hekla 57 stig
7. Íþr.f. Garpur 35 stig
8. Umf. Gnúpverja 16 stig
9. Umf. Biskupstungna 9 stig
10. Þjótandi (Vaka, Baldur, Samhygð) 8 stig

Fyrri greinKlukkur og úr á sýningu í Þorlákshöfn
Næsta greinÖrn og Árni aftur í Mílan