Eitt – núll Tindastóll

Tindastóll hafði betur í fyrstu viðureign Þórs og Stólanna í 8-liða úrslitum Domino’s-deildar karla í körfubolta en liðin mættust á Sauðárkróki í kvöld.

Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur og liðin skiptust á um að gera áhlaup framan af. Tindastóll leiddi 26-16 eftir 1. leikhluta en staðan var 45-44 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var jafn en Tindastóll skoraði átta fyrstu stigin í 4. leikhluta og náði þá þrettán stiga forskoti. Þórsarar áttu ekki afturkvæmt eftir það og Stólarnir hirtu fyrsta sigurinn.

Darrin Govens var stigahæstur hjá Þór með 29 stig, Tómas Tómasson skoraði 19, Nemanja Sovic 12, Grétar Ingi Erlendsson 9, Halldór Hermannsson 8, Oddur Ólafsson og Baldur Þór Ragnarsson 3 og Emil Karel Einarsson 2.

Liðin mætast næst í Þorlákshöfn á mánudagskvöld.

Fyrri greinDagný skoraði sigurmark Bayern
Næsta grein„Þetta verður einn af aðal áfangastöðunum á Íslandi“