Eitt mark dugði ÍBV

Kvennalið Selfoss er úr leik í Borgunarbikarnum í knattspyrnu eftir nauman ósigur gegn ÍBV á Selfossi í kvöld. Lokatölur urðu 0-1.

Þetta var mikill baráttuleikur, ÍBV var sterkari aðilinn framan af en skapaði ekki mörg færi. Síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiks tóku Selfyssingar hins vegar vel við sér og fengu ágætis færi. ÍBV þurfti að grípa í gömlu góðu nauðvörnina á tímabili þar sem Selfyssingar fengu hverja hornspyrnuna á fætur annarri en inn vildi boltinn ekki.

Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri, ÍBV var meira með boltann en færin voru ekki mörg. Bæði lið höfðu þó fengið dauðafæri áður en ÍBV tókst loksins að brjóta ísinn á 73. mínútu. Chloe Lacasse skoraði þá eina mark leiksins eftir gott einstaklingsframtak. Hún spólaði sig framhjá varnarmönnum Selfoss og skaut að marki, Chanté Sandiford kom fingrunum á boltann – stöngin inn!

Selfyssingar náðu ekki að ógna marki ÍBV að neinu ráði eftir þetta fyrir utan nokkurra mínútna pressu í blálokin. Færin létu hins vegar á sér standa og Eyjakonur sigldu burt með farmiða í 8-liða úrslitin í farteskinu.

Fyrri greinNjólahátíðin mikla í Bragganum
Næsta grein„Ekki sæmandi að sinna ekki mikilvægum málaflokki eins og þessum“