Eitt mark Adams dugði ekki til

Adam Örn Sveinbjörnsson skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Fjölni í Grafarvoginn í Lengjudeild karla í knattspyrnu í dag.

Leikurinn fór fjörlega af stað og bæði lið fengu fín færi á upphafsmínútunum. Það var þó ekki fyrr en á 40. mínútu að boltinn lá í netinu, þegar Júlíus Júlíusson skallaði hornspyrnu Fjölnismanna í netið. Selfyssingar létu þetta ekki á sig fá og fimm mínútum síðar stangaði Adam Örn Sveinbjörnsson aukaspyrnu Jóns Vignis Péturssonar í netið.

Fjölnismenn voru sterkari í seinni hálfleik og á 62. mínútu kom Ölfusingurinn Guðmundur Karl Guðmundsson þeim yfir með góðu skoti utan við vítateiginn. Skömmu síðar setti Gary Martin boltann í stöngina á marki Fjölnis og það reyndist dýrt því strax í næstu sókn komst Fjölnir í 3-1 með marki Hákons Jónssonar.

Leikurinn fjaraði nokkuð út eftir þetta en á síðasta korterinu fengu bæði lið góð færi en það var ekki fyrr en á lokamínútunni að Fjölnismenn spiluðu sig í gegnum Selfossvörnina og Viktor Hafþórsson tryggði þeim 4-1 sigur. Tveimur mínútum áður hafði Alexander Clive Vokes fengið sitt annað gula spjald en hann kom inná sem varamaður og var aðeins inná í sextán mínútur.

Eftir leiki dagsins eru Selfyssingar komnir niður í 7. sæti deildarinnar, eru áfram með 25 stig í þéttum pakka á miðri stigatöflunni. Fjölnir er í 3. sætinu með 33 stig.

Fyrri greinSofnaði á fæðingardeildinni
Næsta greinHamar tapaði á Vopnafirði