Einvígið við Njarðvík hefst á laugardag

Fyrsti leikur Hamars og Njarðvíkur í 4-liða úrslitum Iceland Express-deildar kvenna verður í Hveragerði á laugardaginn kl. 16.

Liðið sem fyrr sigrar í þremur leikjum mun leika um Íslandsmeistaratitilinn gegn annað hvort Keflavík eða KR.

Sem fyrr segir er leikur 1 í Hveragerði á laugardag, leikur 2 er í Njarðvík á mánudag kl. 19:15 og leikur 3 í Hveragerði fimmtudaginn 24. mars kl. 19:15.

Ef nauðsynlegt er að spila fleiri leiki verður leikur 4 í Njarðvík laugardaginn 26. mars kl. 15 og mögulegur oddaleikur í Hveragerði þriðjudaginn 29. mars kl. 19:15.

Njarðvíkingar hafa verið á góðu skriði eftir áramót en þær voru efstar í B-riðli deildarinnar og slógu síðan Hauka út í tveimur leikjum í 6-liða úrslitum deildarinnar. Með Njarðvík leikur Julia Demirer sem er Hvergerðingum að góðu kunn eftir að hafa verið í herbúðum liðsins síðustu tvö keppnistímabil.