Karatesamband Íslands hélt æfingabúðir í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi þar sem iðkendur undirbjuggu sig fyrir Smáþjóðamótið í karate sem haldið verður í Laugardalshöllinni þann 14. september næstkomandi.
Reiknað er með að mótið verði það stærsta sem haldið hefur verið á Íslandi en búist er við yfir 350 keppendum og hefur undirbúningur fyrir mótið staðið yfir í þrjá mánuði
Tæplega 40 iðkendur tóku þátt í æfingabúðunum á Selfossi undir stjórn Selfyssingsins Ingólfs Snorrasonar, landsliðþjálfara KAÍ, og hann var ánægður með daginn.
„Það var einstök upplifun að taka æfingarnar í íþróttahúsinu Vallaskóla þar sem aðstaðan er frábær. Selfoss er líka staður sem hefur svo mikla orku, það er alltaf stemning fyrir góðum æfingum á Selfossi og jákvæð tilbreyting fyrir hópinn að fá að komast í annað umhverfi en á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Ingólfur í samtali við sunnlenska.is.
Að sögn Ingólfs er karate í mikilli uppsveiflu þessa stundina og nefnir hann sem dæmi að starf landsliðsins hafi verið á mikilli uppleið undanfarin þrjú ár. Karatesamband Íslands hefur meðal annars átt keppendur í topp 40 á heimslistum í íþróttinni.