Einstefna hjá Árborg

Magnús Hilmar Viktorsson skorar annað af tveimur mörkum sínum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann öruggan sigur á Mídasi í D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.

Heimamenn í Árborg réðu lögum og lofum stærstan hluta leiksins. Ingi Rafn Ingibergsson skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu á 17. mínútu og skömmu síðar kom Daníel Ingi Birgisson Árborg í 2-0. Óttar Guðlaugsson skoraði svo sannkallað draumamark á 31. mínútu þegar hann klippti boltann viðstöðulaust upp í samskeytin, eins og sönnum bakverði sæmir. Staðan var síðan 4-0 í hálfleik eftir að Magnús Hilmar VIktorsson hafði sloppið í gegn og skorað á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri og Árborgurum gekk á köflum illa að halda uppi sömu ákefð og í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir það óðu Árborgarar í færum en það var ekki fyrr en á 80. mínútu að Magnús Hilmar bætti við öðru marki sínu og innsiglaði 5-0 sigur Árborgar.

Árborg er í 3. sæti riðilsins með 13 stig en Mídas er í 6. sæti með 5 stig.

Fyrri greinElsti íbúinn fyrstur með ljósleiðarann
Næsta greinHaldið upp á 150 ára afmæli Guðbjargar í Múlakoti