Einstaklingsíþrótt með liðsanda

MMA, sem er blanda af nokkrum bardagaíþróttum, hefur notið mikilla vinsælda hér á landi eftir frækinn árangur bardagakappans Gunnars Nelson í íþróttinni.

Sunnlendingar geta nú fengið að kynnast þessari íþrótt því nú er nýhafið MMA námskeið í Sportstöðinni á Selfossi. Kennari á námskeiðinu er Selfyssingurinn Brynjólfur Ingvarsson.

Brynjólfur hefur æft íþróttina með íþróttafélaginu Mjölni síðustu fjögur ár en hann hefur tekið þátt í alþjóðlegum mótum með keppnisliði Mjölnis og unnið til verðlauna.

„Ég hafði grun um að Selfyssingar myndu hafa áhuga á blönduðum bardagalistum og hafði því samband við Árna Steinars, eiganda Sportstöðvarinnar, sem tók vel hugmyndina,“ segir Brynjólfur aðspurður um það hvernig hugmyndin að MMA námskeiðinu kveiknaði. Hann segir að til að byrja með verði þetta byrjendanámskeið og svo kennsla í framhaldi af því. Sjálfur byrjaði Brynjólfur að æfa taekwondo fyrir tíu árum og kynnst MMA í kjölfarið.

Féll fyrir blönduðum bardagalistum
En hvað var það sem heillaði Brynjólf við blandaðar bardagalistir? „Í taekwondo er mikið um spörk en í MMA þá er þetta öll flóran af bardagalistum. Þetta býður upp á högg, spörk og glímu. Ég féll bara fyrir sportinu.“ Hann æfir nú tvisvar í viku með Mjölni en á meðan hann bjó í Reykjavík þá eyddi hann átta til tíu klukkstundum á viku í æfingar.

Brynjólfur segir að blandaðar bardagalistir séu mjög fjölbreytt íþróttagrein sem hafi hentað honum. „Þetta er eitthvað sem hentaði mér. Þetta er einstaklingsíþrótt með liðsanda. Þú ert að keppa þarna á þínum forsendum og getur ekki kennt neinum öðrum um ef eitthvað klúðrast. Á sama tíma er liðsandinn mikill því þú ert þarna með félögunum að svitna og skiptast á höggum. Þarna verður til einhver tenging á milli manna sem erfitt er að útskýra.“

Í kringum árangur Gunnars Nelson hefur skapast mikil umræða um blandaðar bardagalistir. Brynjólfur segi að æfingarnar séu ekki hættulausar er meiðslatíðnin sé ekki hærri en til dæmis í handbolta.

„Ef fólk kynnir sér ekki málin þá veit það ekki hvað það er að tala um. Ef þú ætlar þér að keppa í MMA þarftu að fara í læknisskoðun. Það eru bráðaliðar á staðnum, læknar á mótum og ákveðnar reglur. Þannig MMA á ekkert skylt við götubardaga eins og haldið hefur verið fram,“ segir Brynjólfur og vonar að sem flestir skrái sig á námskeið í MMA og kynnist íþróttinni af eigin raun.

Fyrri greinSaga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi – I
Næsta greinUmhverfisverðlaun á þrjá staði