Eins stigs tap í Vesturbænum

Jada Guinn var stigahæst í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hlutirnir falla ekki með Hamri/Þór í úrvalsdeild kvenna í körfubolta það sem af er tímabili. Í kvöld tapaði liðið með eins stigs mun gegn KR á útivelli, 85-84.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en KR leiddi með einu stigi í leikhléi, 47-46. KR-ingar náðu 17 stiga forskoti í 3. leikhluta, 70-53, en þá hófst endurkoma Hamars/Þórs sem minnkaði muninn í eitt stig þegar 39 sekúndur voru eftir af leiknum. Hamar/Þór fékk tvö tækifæri á lokasekúndunum til að skora sigurkörfu en allt kom fyrir ekki og KR fagnaði sigri.

Jada Guinn var stigahæst hjá Hamri Þór með 21 stig og 9 fráköst.

Hamar er á botni deildarinnar eftir níu umferðir, án stiga, en KR er í 4. sæti með 12 stig.

KR-Hamar/Þór 85-84 (24-23, 23-23, 23-10, 15-28)
Tölfræði Hamars/Þórs: Jada Guinn 21/9 fráköst/6 stoðsendingar, Jovana Markovic 15/9 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 14, Ellen Iversen 13/4 fráköst, Bergdís Anna Magnúsdóttir 12, Mariana Duran 9/4 fráköst.

Fyrri greinHamarsmenn ískaldir í Frystikistunni
Næsta greinFyrsti rammasamningurinn við Hveragerðiskirkju undirritaður