Eins stigs sigur á Ísafirði

FSu gerði góða ferð vestur á Ísafjörð í dag en liðið mætti KFÍ í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Collin Pryor skoraði sigurkörfuna í eins stigs sigri þegar tíu sekúndur lifðu leiks.

FSu skoraði fyrstu fimm stig leiksins en KFÍ jafnaði 7-7 áður en gestirnir tóku aftur við sér. Staðan var 11-18 að loknum 1. leikhluta. Annar leikhlutinn var kaflaskiptur, FSu komst í 16-29 en heimamenn minnkuðu muninn niður í tíu stig fyrir leikhlé, 27-37.

Selfyssingum gekk illa í upphafi síðari hálfleiks, KFÍ minnkaðu muninn í 41-42 áður en FSu skoraði sex stig í röð. Þá var staðan 41-48 en heimamenn léku á alls oddi undir lok leikhlutans og náðu forystunni 57-55.

Heimamenn létu kné fylgja kviði og byggðu upp níu stiga forskot á fyrstu fimm mínútum 4. leikhluta. Þá kviknaði aftur neisti í herbúðum FSu og þeir luku leiknum með glæsilegum 3-13 kafla. Collin Pryor átti stórleik og hann tryggði FSu eins stig sigur með tveggja stiga körfu þegar tíu sekúndur voru eftir af leiknum.

Pryor fór á kostum í vörn og sókn, skoraði 27 stig og tók 18 fráköst. Svavar Stefánsson skoraði 12 stig, Ari Gylfason 10, Geir Helgason 9, Þórarinn Friðriksson 6, Erlendur Stefánsson 4 og þeir Birkir Víðisson og Maciej Klimaszewski skoruðu báðir 2 stig.

Fyrri greinÖflugur liðssigur hjá Selfyssingum
Næsta greinMílan tapaði í hörkuleik