Einn Íslandsmeistaratitill á Selfoss

Dagur Fannar Einarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, varð Íslandsmeistari karla í 400 m grindahlaupi á 94. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór á Akureyri um síðustu helgi.

Dagur Fannar hljóp á 55,69 sekúndum og bætti eigið héraðsmet í flokki 18-19 ára pilta um 1,67 sekúndur. Hann var aðeins 0,26 sekúndum frá 33 ára gömlu héraðsmeti Auðuns Guðjónssonar í flokki 20-22 ára.

HSK/Selfoss átti aðeins sex keppendur á mótinu, alla í karlaflokki. Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, tók ekki þátt í mótinu vegna meiðsla sem hún hlaut á Unglingameistaramóti Íslands á dögunum og náði hún því ekki að verja Íslandsmeistaratitil sinn í hástökki.

Sebastian Þór Bjarnason, Umf. Selfoss, bætti sinn besta árangur í kringlukasti og varð í 6. sæti með kast upp á 38,62 m og Viktor Karl Halldórsson, Þór Þ., varð í 4. sæti í spjótkasti, kastaði 53,73 m.

Fyrri greinTveir ungir ökumenn í akstursbann
Næsta greinFjögur HSK met á Selfossleikunum