Einhugur og góður andi hjá glímumönnum

Aðalfundur Glímuráðs HSK 2013 fór fram í Selinu í síðustu viku. Fundarmenn komu frá sex aðildarfélögum HSK þar sem glíma er iðkuð til að gera upp starf ársins 2012 og leggja drög að næstu verkefnum.

Í skýrslu Stefáns Geirssonar, formanns, kom fram að árangur glímufólks HSK var góður á síðasta ári en hæst bar þar sigur Marínar Laufeyjar Davíðsdóttur í Íslandsglímunni. Fjárhagur ráðsins er traustur þótt dálítið tap hafi verið af rekstri ársins 2012 en skýrist það einkum af miklum ferðakostnaði.

Stjórn ráðsins var endurkosin óbreytt en hana skipa auk Stefáns formanns; Guðni Sighvatsson gjaldkeri og Smári Þorsteinsson ritari. Varamenn voru kosnir Ólafur Oddur Sigurðsson og Guðrún Inga Helgadóttir.

Drýgstur tími fundarins fór í að ræða glímustarfið framundan, glímumót vetrarins á HSK svæðinu voru dagsett, rætt um fyrirhugaða unglingaferð Glímusambandsins til Skotlands í sumar auk þess sem samþykkt var að glímuráðið keyptu tuttugu glímubelti sem myndu nýtast til glímukynninga og kennslu á starfssvæði HSK.

Mikill einhugur og góður andi ríkti á fundinum sem vonandi skilar sér í öflugu glímustarfi hjá Skarphéðinsmönnum í vetur.

Fyrri greinFjögur verkefni fengu menningarstyrk
Næsta greinVarað við vatnavöxtum í Ölfusá og Hvítá