„Einfalt upplegg, með krosslagða fingur“

Selfyssingar léku á alls oddi undir stjórn nýs þjálfara og skelltu toppliði Þróttar, 2-0, á JÁVERK-vellinum í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Mér fannst þetta gaman, mjög skemmtilegt. Allt frá því strákanir mættu hérna í dag og þangað til í endurheimtinni eftir leik. Þetta var mjög góður dagur og gott kvöld,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, eftir sinn fyrsta leik í kjölfar þjálfaraskiptanna sem urðu í síðustu viku.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðu allra, bæði þeirra sem byrjuðu inná og þeirra sem komu inná. Þeir voru gríðarlega duglegir og það var mikil vinnusemi og samkennd sem einkenndi liðið,“ sagði Gunnar og bætti við að leikmennirnir hafi nýtt síðustu daga í sjálfsskoðun.

„Menn hafa leitað aðeins inn á við og hver og einn hefur skoðað sjálfan sig í speglinum og fundið hvaða litlu hlutum menn gætu breytt hjá sér til að gera betur og mér fannst það sýna sig í kvöld.“

Þróttur hefur verið á miklu flugi í deildinni og aðeins tapað tveimur leikjum. Gunnar segir að hann og Jón Sveinsson hafi fengið góð vídeó af liðinu og náð að gefa sér tíma til að kortleggja andstæðinginn.

„Þetta var mjög einfalt upplegg, með krosslagða fingur, að loka á þeirra sterkustu menn í uppspili þeirra og mér fannst það ganga mjög vel. Þeir voru farnir að beita löngum boltum sem er þægilegt fyrir okkur að verjast en fyrir utan að vera hættulegir í föstum leikatriðum þá komust þeir aldrei almennilega í gegnum okkur. En það er ástæða fyrir því að Þróttaraliðið er efst í deildinni, þeir eru með gæði og eru á leiðinni upp, það er bara þannig.“

Rauða spjaldið vendipunkturinn
Liðin skiptust á að sækja í upphafi en fengu ekki teljandi færi fyrr en á 13. mínútu þegar Viktor Jónsson prjónaði sig í gegnum Selfossvörnina og náði góðu skoti sem Vignir Jóhannesson varði í horn. Í kjölfarið þyngdust sóknir Þróttar og þeir stjórnuðu leiknum án þess þó að fá nokkur færi. Á 30. mínútu slapp Omar Koroma innfyrir vörn Selfoss en aftur gerði Vignir vel og varði skot Koroma úr þröngu færi.

Á 41. mínútu varð vendipunktur í leiknum þegar Karl Brynjar Björnsson, annar miðvarða Þróttar, fékk sitt annað gula spjald aðeins mínútu eftir að hafa fengið það fyrra. Karl togaði Denis Sytnik niður við vítateigslínuna eftir arfaslakt útspark Trausta Sigurbjörnssonar í marki Þróttar.

Sigurður Óli Þórleifsson, fram að þessu góður dómari leiksins, gat ekki annað en gefið Karli seinna gula spjaldið og úr aukaspyrnunni komust Selfyssingar yfir. Það mark var af dýrari gerðinni því Maniche gjörsamlega hamraði knöttinn í þverslána og inn. 1-0 í hálfleik.

Frábært skallamark Inga Rafns
Þróttarar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti, þrátt fyrir að vera manni færri, en þeim hefndist fyrir það því á 53. mínútu opnaðist vörn þeirra og Sytnik átti góða fyrirgjöf frá hægri á Inga Rafn Ingibergsson sem lúrði á fjærstönginni og skallaði boltann fallega yfir Trausta og í netið.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta, Þróttarar voru meira með boltann en sköpuðu sér ekki neitt og Selfyssingar reyndu að sækja hratt þess á milli. Sú leikaðferð var næstum því búin að skila sér á 67. mínútu þegar Sytnik slapp einn innfyrir en var felldur á vítateigslínunni af Aron Green. Sigurður Óli lyfti rauða spjaldinu, samkvæmt bókinni, en einhverra hluta vegna hætti hann svo við það og gaf Green gula spjaldið þess í stað.

Síðustu tuttugu mínúturnar fjaraði leikurinn nokkurn veginn út, og fátt markvert gerðist upp við mörkin. Þróttarar sóttu talsvert í lokin og sköpuðu helst usla í föstum leikatriðum en náðu aldrei að opna vörn Selfyssinga upp á gátt.

Með sigrinum lyfta Selfyssingar sér upp í 8. sæti deildarinnar og eiga næst gríðarlega mikilvægan leik gegn BÍ/Bolungarvík á útivelli á laugardaginn.

Hér má sjá mörkin úr leiknum á SportTV

Fyrri greinNý sögunarmylla í Þjórsárdal
Næsta grein„Það þurfa allir að gefa í“