Einar Öder sæmdur gullmerki FT

Selfyssingurinn Einar Öder Magnússon var í gær sæmdur gullmerki Félags tamningamanna á aðalfundi félagsins á Kænunni í Hafnarfirði.

Það var fámennt en góðmennt á fundinum þar sem Sigrún Ólafsdóttir lét af störfum sem formaður en eitt af hennar seinustu verkum var að veita Einari gullmerki fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins.

Hér að neðan er brot af tölu Sigrúnar sem hún flutti við afhendinguna.

„Gullmerki Félags tamningamanna er æðsta viðurkenning sem félagsmanni getur hlotnast. Til að hljóta gullmerki félagsins þarf stjórn að vera sammála um valið, og það var hún svo sannarlega á síðasta fundi.

Einar Öder er landsþekktur hestamaður og kunnur fyrir störf sín í þágu íslenska hestsins. Einar hefur um áratuga skeið unnið að framgangi hestamennskunnar hér innan lands og verið öflugur talsmaður hestsins og íslenskrar reiðmennsku á erlendri grundu. Hann var um árabil landsliðseinvaldur og í því starfi sýndi hann svo sannarlega að þar fór fagmaður á ferð. Að velja keppendur, styðja þá og styrkja til árangurs er ekki öllum gefið. „Og svo er hann svo asskoti skemmtilegur,“ sagði einn sem fylgt hefur honum víða á stórmótum erlendis.

Einar hefur komið með einum eða öðrum hætti að starfi Félags tamningamanna um áratuga skeið. Hann gekk í félagið 1984 og lauk tamningaprófi árið 1987. Einar var varaformaður félagsins í nokkur ár og hefur tekið þátt í starfi félagsins með einum eða öðrum hætti alla tíð. Hann er einn af þessum góðu dýrmætu félagsmönnum sem láta í sér heyra ef þeim líkar ekki það sem gert er, en klappar líka á bakið ef vel er gert. Hann lætur sig málin varða og er með því öflugur og mikilvægur félagsmaður.

Ég vona að þessi viðurkenning nýtist þér í því frábæra starfi sem þið hjónin og fleiri eruð að vinna í Frakklandi. Það verður bara að spennandi að fylgjast með þeim landvinningum sem þar eru í uppsiglingu.“

Fyrri greinStúlka féll á eldhúshníf
Næsta greinViðbygging við Grænumörk til skoðunar