Einar með sjö mörk í endurkomuleiknum

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga í kvöld. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss vann öruggan útisigur á botnliði HK þegar keppni hófst á nýjan leik í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

Lokatölur urðu 29-34 en það voru ekki einungis úrslitin sem glöddu Selfyssinga því einnig það að stórskyttan Einar Sverrisson er kominn til baka eftir hnémeiðsli og spilaði í kvöld sinn fyrsta leik í tæpt ár.

Einar stimplaði sig strax inn og skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum Selfyssinga í leiknum. Hann lauk leik á meðal markahæstu manna með 7 mörk, eins og Atli Ævar Ingólfsson, en Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 11/3 mörk.

Góðir kaflar í lok beggja hálfleikja
Selfyssingar voru skrefinu á undan mest allan fyrri hálfleikinn og kláruðu hann vel, með því að breyta stöðunni úr 12-10 í 13-17 á síðustu sex mínútunum og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Selfoss hafði forystuna allan seinni hálfleikinn en HK náði að minnka muninn í tvö mörk, 26-28, þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum. Þá stigu Selfyssingar á bensíngjöfina, Atli Ævar var öflugur gegn sínu gamla liði á lokamínútunum og Selfoss náði að auka muninn aftur í sjö mörk. HK skoraði tvö síðustu mörk leiksins og lokatölur urðu, sem fyrr segir, 29-34.

Markmennirnir ekki í stuði
Aðrir markaskorarar Selfoss í leiknum voru Daníel Karl Gunnarsson og Alexander Egan með 3 mörk, Magnús Öder Einarsson með 2 mörk og Guðni Ingvarsson með 1 mark. 

Markmenn Selfoss voru ekki í stuði í kvöld, en það kom ekki að sök. Sölvi Ólafsson varði 6/2 skot og var með 32% markvörslu og Einar Baldvin Baldvinsson varði 5 skot og var með 24% markvörslu.

Eftir fjórtán umferðir er Selfoss með 17 stig í 5. sæti deildarinnar en HK er í botnsætinu með 2 stig.

Fyrri greinGuðmundur til New York City FC
Næsta greinPósturinn hættir að dreifa fjölpósti á Selfossi