Einar Jónsson þjálfar Árborg

Einar Jónsson hefur verið ráðinn þjálfari 2. deildarliðs Árborgar í knattspyrnu.

Einar tekur hann við starfinu af Adólf Bragasyni sem hætti þjálfun liðsins í haust. Árborg varð í 3. sæti 3. deildar sl. sumar en vann sér sæti í 2. deild eftir sameiningu Hvatar og Tindastóls.

Einar á langan feril að baki sem leikmaður og þjálfari. Hann er leikjahæsti leikmaður Selfyssinga þar sem hann lék 386 leiki á árunum 1974-1994. Hann lék einnig með ÍBÍ í úrvalsdeildinni árið 1982.

Einar þjálfaði yngri flokka Selfoss í mörg ár áður en hann tók við meistaraflokki Selfoss haustið 1994, þegar hann lagði skóna á hilluna. Einar þjálfaði Selfyssinga til ársins 1999, með stuttu hléi árið 1998 þegar hann tók aftur við liðinu á miðju sumri og bjargaði því frá falli.

Einar þjálfaði meistaraflokk Ægis í Þorlákshöfn 2000-2002 og tók svo aftur við Selfyssingum haustið 2005 og þjálfaði liðið fram í júní sumarið 2007.