Einar ánægður með Þýskalandsdvölina

„Það var séð rosalega vel um mann þarna og ég þurfti svo gott sem ekki að hafa neinar áhyggjur af neinu,“ segir Selfyssingurinn Einar Sverrisson, sem í síðustu viku æfði með stórliðinu Rhein-Neckar Löwen.

Einar er fyrsti leikmaðurinn sem handknattleiksdeild Umf. Selfoss sendir til RNL síðan félögin gerðu samkomulag um að framúrskarandi leikmenn fái tækifæri til að kynnast lífinu í atvinnumennskunni. Þjálfari RNL er Guðmundur Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari og þá leika þeir Alexander Peterson, Stefán Rafn Sigurmannsson og Rúnar Kárason með liðinu.

„Ég bjó hjá Rúnari Kára og það kom sér vel, því hann er góður kokkur,“ segir Einar léttur en hann ber leikmönnum stórliðsins söguna vel.

„Strákarnir voru allir mjög fínir og það var enginn með neina stæla eða þannig, þetta eru allt mjög fínir gæjar. Ég var mjög sáttur við þessa viku og Gumma leist ágætlega á mig. Svo sjáum við bara til með framtíðina hvað gerist næst,“ segir Einar sem mun spila með Selfyssingum í 1. deildinni í vetur, en hann skoraði 130 mörk fyrir liðið í fyrravetur.

Einar segir helsta muninn á æfingunum í Þýskalandi og hér heima vera að leikmennirnir í Þýskalandi hlaupi meira. „Það sat aðeins í mér en handboltaæfingarnar hjá þeim eru svipaðar og maður þekkir. Gæðin eru auðvitað meiri þarna úti en liðið æfir t.d. tvisvar á dag og þar liggur mesti munurinn í æfingunum.“

Fyrri greinEkkert sérstakt tiltektarátak fyrir Google
Næsta greinKristjana og Svavar Knútur í Tryggvaskála