„Eigum við ekki að segja mínus tólf kíló og bara stuð?“

Í 1. deild karla í handbolta í kvöld lét Mílan Gróttu hafa fyrir hlutunum þegar Seltirningar tryggðu sér sæti í úrvalsdeildinni. Grótta sigraði 22-29 eftir hörkuleik.

„Ég óska Gróttu til hamingju með sigurinn og úrvalsdeildarsætið. Þeir eru vel að þessu komnir en við gerðum þeim erfitt fyrir,“ sagði Örn Þrastarson, þjálfari Mílan, í viðtalinu hér að neðan.

Honum líst vel á næsta keppnistímabil þar sem lið Mílan mun mæta tvíeflt til leiks. „Eigum við ekki að segja mínus tólf kíló og bara stuð?“ sagði Örn í viðtalinu.

Grótta náði þriggja marka forskoti í upphafi leiks en Mílan minnkaðu muninn í tvö mörk þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og staðan var 11-13 í leikhléi.

Lið Mílan andaði ofan í hálsmálið á Gróttumönnum frameftir seinni hálfleik en á síðasta korterinu skildi á milli og Grótta náði sjö marka forskoti.

Örn Þrastarson var markahæstur hjá Mílan með 12/4 mörk, Atli Kristinsson og Eyvindur Hrannar Gunnarsson skoruðu 3 og þeir Óskar Kúld, Magnús Már Magnússon, Gísli Guðjónsson fyrirliði og Einar Sindri Ólafsson skoruðu allir 1 mark.

Sverrir Andrésson varði 15 skot í marki Mílan og var með 35% markvörslu.

Fyrri greinÞórsarar komnir í sumarfrí
Næsta greinBlikar skoruðu í blálokin