„Eigum að klára þessa leiki“

Árni Steinn Steinþórsson skoraði sjö mörk fyrir Selfyssinga í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Topplið Selfoss gerði 27-27 jafntefli við KA í Olísdeild karla í handbolta í dag, þegar liðin mættust í Hleðsluhöllinni á Selfossi. Þrátt fyrir tapað stig er Selfoss enn á toppnum.

„Heilt yfir þá var þetta slakt. Við vorum staðir sóknarlega í fyrri hálfleik og vantaði algjörlega agann í lokin. Við vorum komnir þremur mörkum yfir og eigum í flestum tilvikum að klára svona leik. Ég ætla ekki að taka neitt af KA, þeir voru grimmir í vörninni en ef við erum ekki nógu grimmir sóknarlega þá töpum við. Við spiluðum alltof stuttar sóknir í lokin í stað þess að leita að besta færinu, þannig að þetta er hundfúlt. Við eigum að klára þessa leiki, sérstaklega á heimavelli, þannig að ég er grautfúll með þetta,“ sagði Árni Steinn Steinþórsson í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Æsispennandi í lokin
KA byrjaði vel í leiknum og hafði frumkvæðið nánast allan fyrri hálfleikinn. Staðan var 10-13 í leikhléi. Það var hins vegar allt annað að sjá til Selfyssinga í upphafi síðari hálfleiks, þar sem þeir sýndu loksins sínar réttu hliðar, góða vörn og snarpar sóknir.

Selfoss komst yfir, 17-16, þegar ellefu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og í kjölfarið varð munurinn þrjú mörk. Staðan var 25-22 þegar rúmar sjö mínútur voru eftir en KA skoraði þá þrjú mörk í röð og lokakaflinn var æsispennandi. Gestirnir jöfnuðu 27-27 þegar fjórar sekúndur voru eftir og hindruðu svo hraða miðju Selfyssinga í kjölfarið. Dómararnir létu það ekki á sig fá heldur gleyptu flauturnar og leiktíminn rann út.

Þrátt fyrir jafnteflið eru Selfyssingar í toppsæti deildarinnar með 12 stig að loknum sjö umferðum.

Árni Steinn sterkur í sókninni
Árni Steinn var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, þar af þrjú af vítalínunni. Hann átti góðan leik í sókninni og lagði meðal annars sex stoðsendingar í púkkið.

Haukur Þrastarson skoraði 6 mörk og var sterkur á lokakaflanum, Alexander Egan og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu 4, Atli Ævar með 100% skotnýtingu, auk þess sem hann lét vel til sín taka í vörninni. Hergeir Grímsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu báðir 3 mörk.

Pawel Kiepulski varði 12 skot í marki Selfoss og var með 35% markvörslu. Hann náði sér ekki almennilega á strik í fyrri hálfleik þannig að Sölvi Ólafsson leysti hann af um stund en náði ekki að verja neitt af þeim fimm skotum sem í boði voru.

Fyrri greinStórsigur Þórs í bikarnum
Næsta greinJovanov stigahæstur í bikarsigri