Egill sigraði í úrslitaglímunni á 11 sekúndum

Sex keppendur frá Ungmennafélagi Selfoss kepptu á Íslandsmótinu í júdó sem fram fór í Laugardalshöllinni á dögunum og náðu þeir allir á verðlaunapall.

Egill Blöndal Ásbjörnsson varði Íslandsmeistaratitil sinn frá 2017 í -90 kg flokki og sigraði allar sínar viðureignir á fullnaðar sigri „ippon“ og átti að auki stystu glímuna mótsins þar sem hann sigraði Ægi Valsson á 11 sekúndum í úrslitaglímunni, en búist hafði verið við jafnri átaka glímu.

Þriðja sæti í sama flokki náði Úlfur Böðvarsson en hann vakti mikla athygli fyrir góða tækni og glæsileg tilþrif. Með árangri sínum á Íslandmótinu tryggði Úlfur sér rétt til þess að bera svart belti og er því núna 1. Dan.

Þeir Þór Davíðsson og Grímur Ívarsson skiptu um sæti á þessu Íslandsmeistarmóti þegar Þór tókst að sigra Grím í jafnri og spennandi glímu í -100 kg flokknum, en 2017 sigrað Grímur Þór eftir jafna glímu. Þór fór því í úrslitaglímuna gegn Eyrbekkingnum Bjarna Skúlasyni, sem um árabil hefur verið einn besti júdómaður landsins. Varð að framlengja glímuna en þá tókst Bjarna að tryggja sér sigur.

Hrafn Arnarson átti góðan dag í -81 kg flokknum og sigraði Kristján Vernharðsson í glímunni um bronsið, en Kristján er sonur Vernharðs Þorleifssonar, sem var í hópi bestu júdómanna landsins um ára bil. Sýndi Hrafn sínar bestu hliðar, mikla yfirvegun og öryggi.

Breki Bernharðsson gerði atlögu að Íslandsmeistaratitili í -73 kg flokki og það voru fullkomlega raunverulegar væntingar en niðurröðun í riðla og Gísli Vilborgarson komu í veg fyrir að hann yrði Íslandsmeistari í þetta skipti, Breki náði þó bronsi og býst við betri árangri næst.

Í opna flokknum tókust þeir Bjarni Skúlason og Egill Blöndal á um það hver færi í loka viðureignina við Þormóð Jónsson. Mátti vart á milli sjá hvernig sú viðureign endaði og hafði Egill lengst af betur en í framlengdri viðureign tókst Bjarna knýja fram sigur, þannig að Agli tókst ekki að vera titil sinn sinn frá því 2017 og lenti nú í 3. sæti. Þormóður, sem er þungavigtari og um 135 kg, varð Íslandsmeistari eftir að sigra Bjarna í úrslitum og þótti áhorfendum Bjarni hafa staðið sig vel í þeirri viðureign.

Í kvennaflokki varð Hrunakonan Edda Tómasdóttir í 2. sæti í -70 kg flokki og í 3. Sæti í opnum flokki en Edda keppir fyrir Íþróttafélagið Draupni á Akureyri.

Fyrri greinGekk berserksgang á gröfu og reyndi að flýja undan laganna vörðum
Næsta greinKiriyama Family með tónlistarveislu á Húrra