Egill og Katla María íþróttafólk Selfoss

Egill og Rakel Guðjónsdóttir, liðsfélagi Kötlu Maríu, sem tók við verðlaununum fyrir hennar hönd. Ljósmynd/selfoss.net

Júdómaðurinn Egill Blöndal og handknattleikskonan Katla María Magnúsdóttir voru útnefnd íþróttafólk ársins 2023 hjá Ungmennafélagi Selfoss. Kjörinu var lýst á verðlaunahátíð ungmennafélagsins sem fram fór fyrr í mánuðinum.

Egill er einn öflugasti júdómaður landsins en hann varð Norðurlandameistari í -100 kg flokki og náði í einu gullverðlaun Íslands á NM sem fram fór í Noregi. Tveimur vikum síðar vann hann bronsverðlaun í sama þyngdarflokki á Smáþjóðaleikunum á Möltu auk þess sem hann hampaði Íslandsmeistaratitli.

Katla María var besti leikmaður Selfoss á síðasta keppnistímabili og næst markahæst í Olísdeildinni með 8,4 mörk að meðaltali í leik. Hún lék sína fyrstu A-landsleiki í mars síðastliðnum og var síðan valin í leikmannahóp Íslands fyrir Heimsmeistaramótið sem fram fór nú í desember og lék þar sinn fyrsta leik á stórmóti.

Fyrri greinGaf konunni danskar krónur í umslagi og eitthvað súkkulaði úr sjoppunni
Næsta greinHver er Sunnlendingur ársins 2023?