Egill með brons á Smáþjóðaleikunum

Egill með bronsið á Smáþjóðaleikunum á Möltu. Ljósmynd/Aðsend

Selfyssingurinn Egill Blöndal vann í gær bronsverðlaun í -100 kg flokki í júdó á Smáþjóðaleikunum sem nú standa yfir á Möltu.

„Þetta var ásættanlegt. Ég kom hingað til að sigra en þetta er fyrsta keppnin mín í -100 kg. Ég mun sennilega færa mig aftur niður um flokk, þarf bara að komst í betri æfingu,“ segir Egill, sem er að koma til baka úr meiðslum. Þetta er í þriðja skiptið á ferlinum sem hann kemst á verðlaunapall á Smáþjóðaleikunum.

Egill mætti fyrrum Evrópumeistara U21 í fyrstu umferð, Danilo Pantic frá Svartfjallalandi. Pantic skoraði waza-ari þegar glíman var hálfnuð og hélt það út. Pantic fór því í úrslitaglímu mótsins en tapaði þar óvænt fyrir Georgios Kroussantiotakis frá Kýpur.

Í bronsglímunni mætti Egill Raphael Schwendinger frá Liechenstein. Þeir hafa mæst áður, Schwendinger lagði Egil í úrslitaglímu á Smáþjóðaleikunum 2019 en Egill vann hann á Evrópumeistaramóti smáþjóða í nóvember síðastliðnum, þegar þeir kepptu í -90 kg flokki. Glíma þeirra nú var jöfn en Egill náði Schwendinger á ippon kasti þegar 30 sekúndur voru eftir og sigraði.

Fyrri greinDímonarkeppendur sigursælir á blakmóti
Næsta greinSkítamórall troðfyllti Sviðið þrjú kvöld í röð