Egill fékk afreksstyrk frá Landsbankanum

Júdómaðurinn Egill Blöndal, Umf. Selfoss, var einn ellefu framúrskarandi íþróttamanna sem í dag fengu úthlutað afreksstyrkjum úr Samfélagssjóði Landsbankans.

Samtals var úthlutað þremur milljónum króna úr sjóðnum, fjórir fengu 400 þúsund króna styrk og Egill var einn sjö íþróttamanna sem fengu 200 þúsund króna styrk.

Þetta er í annað sinn sem Landsbankinn veitir afreksstyrki undir þessum formerkjum og bárust nú 177 umsóknir um þá.

Í dómnefnd afreksstyrkja sátu Þórdís Gísladóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, sem jafnframt var formaður, Ómar Bragi Stefánsson verkefnastjóri hjá UMFÍ og Finnur Sveinsson, sérfræðingur Landsbankans í samfélagsábyrgð.