Egill eini Íslendingurinn á HM

Egill Blöndal Ásbjörnsson, Umf. Selfoss, verður eini íslenski keppandinn á Heimsmeistaramótinu í júdó sem haldið verður í Búdapest í Ungverjalandi um næstu mánaðamót.

Egill keppir í -90 kg flokki en keppt verður í flokknum fimmtudaginn 31. ágúst. Egill hefur æft mjög vel undanfarið, innanlands og utan. Hann var við æfingar í Frakkandi, Tékklandi, Austurríki og Japan á síðasta ári og þessu ári meðal annars í Austurríki og Spáni.

Hafa þessar æfingar beint og óbeint verið undirbúningur fyrir HM 2017 og Tokyo Grand Slam í byrjun desember næstkomandi.

Egill, sem er tvöfaldur Íslandsmeistari, hefur tekið þátt í mörgum mótum innanlands utan undanfarin ár og unnið til fjölda verðlauna. Á heimsmeistaramótinu eru vegleg peningaverðlaun, auk heiðursins að vinna fyrsta sæti og fá verðlaunagrip. Þannig er verðlaunaféð fyrir fyrsta sæti rúmar 11 milljónir króna.

Þess má geta að heimsmeistaramótið verður í beinni útsendingu á netinu og verður útsendingin nánar kynnt síðar.

Fyrri greinHvetja Íbúðalánasjóð til að fresta sölu íbúða í leigu
Næsta greinGlæsilegt met hjá Magnúsi