Egill bestur á Íslandi

Þór (t.v.) og Egill glímdu til úrslita í opnum flokki. Ljósmynd: Umf. Selfoss/Garðar Skaptason

Egill Blöndal varð tvöfaldur Íslandsmeistari þegar Íslandsmótið í júdó fór fram í Laugardalshöllinni um síðustu helgi. Selfoss átti fimm keppendur á mótinu.

Egill átti frábæran dag en hann vann sinn þyngdarflokk með yfirburðum. Voru allar viðureignir hans í -90 kg þyngdarflokknum stuttar. Sú lengsta var 23 sekúndur og sú stysta 3 sekúndur – slíkir voru yfirburðir Egils.

Maraþonglíma Egils og Þórs
Í opna flokknum sigraði Egill úrslitaglímuna gegn félaga sínum Þór Davíðssyni eftir hörkuátök. Hefðbundinn keppnistími í júdó er 4 mínútur en úrslitaviðureign Egils og Þórs tók 18 mínútur og 40 sekúndur. Egill sótti án afláts en Þór var ekki tilbúinn að gefa sinn hlut. Hann varð að lokum að játa sig sigraðan og hlaut því silfurverðlaunin í opna flokknum en hann varð Íslandsmeistari í -100 kg flokki.

Framtíðin er björt
Grímur Ívarsson varð í 2. sæti í -100 kg flokknum og Breki Bernharðsson varð í 2. sæti í -73 kg flokki. Breki átti góðan dag þó hann næði ekki Íslandsmeistaratitlinum. Hann þurfti að lúta í lægra haldi í hörkuglímu gegn Gísla Egilssyni. Breki sótti af krafti og hafði frumkvæðið í viðureigninni en niðurstaða dómara varð samt sigur Gísla.

Jakub Tomczyk var að keppa í fyrsta skipti á Íslandsmóti í fullorðinsflokki aðeins 15 ára og stóð sig mjög vel. Hann varð í 4. sæti í -66 kg flokki.

Fyrri greinÞrír Sunnlendingar heiðraðir á Íþróttaþingi ÍSÍ
Næsta greinMagnaðir Selfyssingar með Valsmenn upp við vegg