„Ég veit ekki alveg hvað staðan var“

Hergeir Grímsson átti góðan leik í kvöld og skoraði 5 mörk fyrir Selfoss. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfyssingar sitja í toppsæti Olísdeildar karla í handbolta eftir frábæran sigur á Val í rafmögnuðum leik í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld, 28-24.

„Þetta var erfið fæðing en seinni hluti seinni hálfleiksins var bara fullkominn hjá okkur. Ég veit ekki alveg hvað staðan var á þessum kafla og sem betur fer náðum við upp þessum mun því þetta hefði verið erfitt í jöfnum leik – að vera klukkulaus,“ sagði Hergeir Grímsson, leikmaður Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Leikklukkan í Hleðsluhöllinni fraus þegar rúmar tuttugu mínútur en Selfyssingar létu það ekki slá sig út af laginu, gerðu 6-1 áhlaup og breyttu stöðunni úr 17-17 í 23-18. Valsmenn náðu sér aldrei á strik eftir þetta og Selfyssingar voru frábærir á lokakaflanum.

„Pawel var frábær í dag, hann eiginlega bjargaði okkur, sérstaklega í fyrri hálfleik en hann hélt áfram í seinni hálfleik og var góður allan tímann. Þetta var örugglega hans besti leikur frá því að hann kom hingað,“ bætti Hergeir við, en pólski markvörðurinn varði 17 skot í leiknum, oft á mikilvægum augnablikum.

Þetta var fjórði leikur Selfyssinga á tólf dögum og það er stutt í næsta leik, gegn FH á útivelli á laugardaginn. Hergeir segir Selfossliðið í fínu formi.

„Jú, það er búið að vera smá álag á okkur. Við tókum bara léttar teygjur og liðkuðum okkur í gær. Þetta hafa verið rólegar æfingar enda hafa verið tveir og þrír dagar á milli leikja. En við erum í ágætis formi. Við æfðum vel í sumar og erum í flottu formi.“

Elvar Örn Jónsson var Selfyssingum mikilvægur í kvöld, sérstaklega á lokakaflanum þar sem Valsmenn réðu ekkert við hann. Elvar skoraði 6 mörk í leiknum og sendi 7 stoðsendingar.

Haukur Þrastarson skoraði sömuleiðis 6 mörk og var burðarás í sóknarleik liðsins, Hergeir Grímsson skoraði 5 frábær mörk og reyndist liðinu mikilvægur á lokakaflanum þegar hann var færður inn á miðjuna. Atli Ævar Ingólfsson skoraði 4 mörk, Guðjón Baldur Ómarsson og Árni Steinn Steinþórsson 2, Einar Sverrisson 1/1 og þeir Richard Sæþór Sigurðsson og Guðni Ingvarsson skoruðu sitt markið hvor.

Maður leiksins var hins vegar Pawel Kiepulski sem varði 17 skot í leiknum og var með 43% markvörslu.

Fyrri grein„Bókasafnið er notalegur staður til að hittast og spjalla saman“
Næsta greinRúmar 6 milljónir á Selfoss vegna HM