„Ég var bara svalur á því“

„Þetta var geggjað, þetta var alveg þvílíkt geggjað,“ sagði markaskorarinn Viktor Unnar Illugason eftir leik Selfoss og Keflavíkur.

„Það var ekki rassgat að gerast í fyrri hálfleik en við höfðum samt trú á þessu. Við töluðum um það í leikhléinu að ef við næðum að skora snemma í seinni þá gætum við unnið þetta. Það var frábært hvernig við komum til baka og sýndum þvílíkan karakter. Við sýndum bara hvað við getum,“ sagði Viktor Unnar ennfremur.

Hann jafnaði leikinn fyrir Selfoss með marki úr vítaspyrnu á 81. mínútu en þurfti að taka spyrnuna tvisvar þar sem YaoYao hafði hlaupið of snemma inn í teig.

„Þetta var létt í fyrra skiptið en ég viðurkenni það alveg að seinni spyrnan var erfiðari. Ég var bara svalur á því og ákvað að vippa honum. Fyrri spyrnan var í hornið og ég vissi að markmaðurinn myndi skutla sér.

Það er langt síðan að ég skoraði síðast þannig að þetta var löngu tímabært. Fyrst ég er kominn á blað þá er engin ástæða til að hætta að skora núna. Við höldum bara svona áfram,“ sagði Viktor Unnar að lokum.

Fyrri grein„Ég elska ykkur öll“
Næsta grein„Það var allt brjálað í lokin“