„Ég stökk upp eins og ninja“

Bakvörðurinn Hrafnhildur Hauksdóttir skoraði sigurmark Selfoss á lokamínútunni í 3-2 sigri á ÍBV í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

„Þetta var góður sigur eftir erfiðan leik. Við gáfum þeim alltof mikinn tíma á boltann í seinni hálfleik en síðan sýndum við okkar rétta andlit undir lokin og börðumst fyrir sigrinum,“ sagði Hrafnhildur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Hún var himinlifandi í leikslok og fagnaði vel með liðsfélögum sínum en sigurinn var talsverður léttir fyrir Selfossliðið sem átti afleitan leik í fyrstu umferðinni gegn Fylki.

„Við mættum ekki til leiks á fimmtudaginn gegn Fylki en við unnum vel í okkar málum á milli leikja og sýndum í kvöld hvernig Selfosshjartað slær. Það er líka frábært að fá Dagnýju [Brynjarsdóttur] inn í hópinn. Hún vinnur marga skallabolta á miðjunni og er mikill baráttuleikmaður,“ sagði Hrafnhildur. Og hún var vitanlega ánægð með markið sitt.

„Anna María tók aukaspyrnuna og ég var eiginlega alein á nærsvæðinu. Ég stökk upp eins og ninja og horfði svo á eftir boltanum. Hann var allan tímann að fara inn,“ sagði Hrafnhildur hress að lokum.

Fyrri greinHrafnhildur hetja Selfyssinga
Næsta greinSelfoss áfram í bikarnum