„Ég hef aldrei verið jafn stoltur“

Best klæddi knattspyrnuþjálfari landsins, Gunnar Rafn Borgþórsson, var ánægður með sitt lið í dag, þrátt fyrir 4-0 tap gegn Stjörnunni í úrslitaleik Borgunabikars kvenna.

„Leikskipulagið gekk upp þangað til við fengum leiðindamark í andlitið í lok fyrri hálfleiks. Þá þurftum við að gera breytingar. Það var lítið að ganga í seinni hálfleik, leikurinn daufur og þær við það að taka hann yfir, þá ákváðum við að fara „all-in“ og taka sénsa,“ sagði Gunnar í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hann færði Blake Stockton úr miðverði í framlínuna og reyndi þannig að hrista upp í sóknarleik Selfossliðsins.

„Það hefur gengið hjá okkur áður að henda Blake í framlínuna, en það er ákveðin áhætta gegn svona sterku liði. Ef við hefðum náð að jafna þá hefði kannski eitthvað ótrúlegt gerst. En um leið vorum við ekki eins massívar til baka og við gáfum færi á okkur í lokin og lokatölurnar, 4-0, gefa skakka mynd af þessu,“ sagði Gunnar sem var þrátt fyrir tapið stoltur af sínu liði.

„Ég er hérna í þriðja skiptið og ég hef aldrei verið jafn stoltur og akkúrat núna. Þetta ævintýri að fara í gegnum leikina í þessari keppni með þessar stelpur – okkar stelpur – og bæjarfélagið á bakvið okkur, þetta er bara ótrúlegt.“

Fyrri greinMeð gæsahúð frá upphafi til enda
Næsta greinStórsigur hjá KFR – Ægir tapaði