„Ég er í skýjunum“

Gary Martin handsalar samninginn við þá Jón Steindór Sveinsson og Hjalta Þorvarðarson. Ljósmynd/UMFS

Markamaskínan Gary Martin skrifaði í dag undir þriggja ára framlengingu á samning sínum við knattspyrnudeild Selfoss. Martin gekk til liðs við Selfoss fyrir tímabilið í fyrra og stimplaði sig rækilega inn með 14 mörkum í 23 leikjum.

„Ég er í skýjunum með þennan þriggja ára samning sem ég hef gert við Selfoss. Félagið og bæjarfélagið í heild hefur tekið frábærlega á móti mér síðan ég kom hingað fyrir síðasta tímabil,“ sagði Martin við undirskriftina.

„Það sem er að gerast á Selfossi í fótboltanum er virkilega spennandi. Félagið stefnir hátt sem sýnir sig best í frábærum þjálfara, aðstæðum og fólki í kringum félagið. Ofan á það eru virkilega spennandi ungir leikmenn að koma upp ásamt frábærum leikmönnum á öllum aldri í liðinu,“ sagði Martin ennfremur.

Í tilkynningu frá Selfyssingum segir að það sé mikið fagnaðarefni að Martin hafi framlengt samning sinn. Selfyssingar eru nú á fullu að undirbúa sig fyrir komandi keppnistímabil sem hefst þann 9. apríl næstkomandi þegar liðið spilar í 1. umferð Mjólkurbikarsins gegn 4. deildarliði Ísbjarnarins.

Fyrri greinTBR gaf badmintonvörur á Litla-Hraun
Næsta greinVill sjá þjóðarhöll rísa á Selfossi