„Ég er fáránlega stoltur“

Ragnar fagnar geggjaðri vörslu í leiknum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Landsliðsmaðurinn Ragnar Ágúst Nathanaelsson hefur verið algjör lykilmaður í velgengni Hamars í 1. deild karla í körfubolta í vetur. Hann sneri aftur heim í bæinn sinn síðasta haust með það í huga að lyfta körfuboltanum á hærra plan og það tókst svo sannarlega því í kvöld tryggði Hamar sér aftur sæti í deild þeirra bestu.

„Þetta var heldur betur langþráð fyrir okkur Hvergerðinga. Þegar ég kom hingað fyrir tímabilið þá var markmiðið mitt bara að gera körfuboltann í Hveragerði betri, ekkert endilega að fara upp, heldur bara að liðið myndi bæta sig frá árinu áður. Það var ekki pressa á okkur allt tímabilið að komast upp en svo þróaðist þetta bara þannig að við erum með drullugott lið. Okkur tókst ekki að vinna deildina en það er miklu skemmtilegra að fara þessa leið eftir alvöru naglbít þar sem allt var undir í fimmta leik. Ég er fáránlega stoltur og líka ánægður með hvað við fengum frábæran stuðning,“ sagði Ragnar í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Þetta var alvöru einvígi. Allir leikir unnust á heimavelli og ég vil hrósa Skallagrím, þeir eru með geggjað lið og frábæra stuðningsmenn.“

Orðrómur var uppi um það að Ragnar myndi leggja skóna á hilluna eftir tímabilið, sama hvort Hamar færi upp eða ekki. Var þetta síðasti leikurinn hans?

„Nei, alls ekki. Maður er svo mikill þræll íþróttarinnar, það eru margir íþróttamenn sem tengja við það, maður hefur ekkert um þetta að segja sjálfur. Ég er ennþá ungur og ég mun dröslast í þessu þangað til líkaminn segir nei,“ sagði Ragnar skælbrosandi að lokum.

Fyrri greinÞórsarar í bílstjórasætinu
Næsta greinSjáðu Hamarsmenn fagna