„Ég elska ykkur öll“

Jean Stephane YaoYao var einn besti maður Selfoss gegn Keflavík í kvöld og hann var virkilega hamingjusamur í leikslok.

„Þetta var frábær frammistaða að koma svona til baka í seinni hálfleik. Þetta leit alls ekki vel út í fyrri hálfleik hjá mér og vinum mínum í liðinu. Keflavík er með gott lið og þeir gerðu okkur erfitt fyrir,“ sagði Stephane í samtali við sunnlenska.is.

„Gummi sagði við okkur í hálfleik að ef við legðum okkur fram eins og lið þá gætum við unnið þennan leik og við gerðum það. Við spiluðum eins og lið og ég er mjög ánægður núna.“

Þessi tvítugi leikmaður hefur náð að heilla stuðningsmenn Selfoss með tækni og yfirvegun á miðjunni og á meðan á viðtalinu stóð sungu Skjálftamenn stanslaust White Stripes lagið um Jean Stephane YaoYao. Stephane segist ánægður með stuðninginn sem hann og Bolou félagi hans hafa fengið og þegar mikið liggur við flaggar hann hvítum stuttermabol framan í áhorfendur með áletruninni ‘Thank you my God. I love you all’.

„Þetta er mín leið til að þakka áhorfendunum fyrir stuðninginn. Ég elska ykkur öll og ég elska stuðningsmennina. Án stuðningsins er ég ekki neitt. Ég er mjög hamingjusamur í kvöld og Bolou vinur minn er það líka,“ sagði miðjumaðurinn snaggaralegi að lokum.

Fyrri greinSelfoss – Keflavík 3-2
Næsta grein„Ég var bara svalur á því“