„Ég á ekki orð“

Topplið Mílunnar fór illa að ráði sínu og tapaði sínum fyrsta leik í 1. deild karla í handbolta í kvöld þegar ÍH kom í heimsókn í Vallaskóla á Selfossi. Lokatölur urðu 24-25.

„Ég veit eiginlega ekki hvað gerðist hér í kvöld. Ég á ekki orð. Ákvarðanir leikmanna, dómara, áhorfenda og annarra sem voru í húsinu voru allar út úr kú. Það var sama hvað það var,“ sagði orðlaus Örn Þrastarson, þjálfari Mílunnar, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við misstum hausinn í seinni hálfleik. Við létum ýmis utanaðkomandi atvik sem við höfum ekki stjórn á fara í taugarnar á okkur og töpuðum gleðinni og það sat bara í okkur út allan seinni hálfleikinn. Þetta eru glötuð úrslit en það má ekki gleyma því að Mílan er bara lið sem æfir þrisvar í viku og ekki nema von að við séum í hörkuleik hérna við lið á svipuðum forsendum. En ég auglýsi eftir gleðinni fyrir næsta leik gegn Stjörnunni og að menn spili þar með hjartanu,“ sagði Örn ennfremur.

Leikurinn var í járnum framan af en þegar leið á fyrri hálfleikinn náði Mílan mest fjögurra marka forskoti. Staðan var 13-10 í hálfleik.

Í síðari hálfleik var barist af mikilli hörku, of mikilli á köflum, og dómarar leiksins réðu ekkert við gang mála. ÍH jafnaði 16-16 þegar rúmar átta mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og eftir það var jafnt á flestum tölum.

Þegar leið á seinni hálfleikinn jókst harkan til muna, ákvarðanir dómaranna urðu tilviljanakenndar og Mílumenn misstu hausinn algjörlega við mótlætið.

Atli Kristinsson var ítrekað buffaður af vörn ÍH og af einhverjum óskiljanlegum sökum slapp hann við rautt spjald þegar hann hefndi fyrir barsmíðarnar. Leikmaður ÍH hefði sömuleiðis átt að fá rautt spjald í kjölfar þess. Skömmu síðar fékk hinn dagfarsprúði þjálfari Mílunnar, Sebastian Alexandersson, rautt spjald fyrir kröftug mótmæli og Mílumenn manni færri í fjórar mínútur í kjölfarið. Það gerði liðinu lítið gagn.

Í allri þessari brottvísanasúpu voru Mílumenn bæði einum og tveimur leikmönnum færri og það nýttu gestirnir sér og náðu þriggja marka forskoti, 21-24 þegar þrjár mínútur voru eftir.

Mílan gafst þó ekki upp, spilaði maður á mann á síðustu tveimur mínútunum og það skilaði árangri. Munurinn var eitt mark, 24-25, og fimmtán sekúndur eftir þegar dæmt var sóknarbrot á ÍH og Mílan fékk boltann. Atli negldi boltanum fram á Sævar Eiðsson sem var á auðum sjó, en dómararnir stöðvuðu sóknina og létu Míluna endurtaka aukakastið – án sjáanlegrar skýringar. Mílunni tókst ekki að jafna á lokasekúndunum og leiktíminn rann út.

Þetta er fyrsta tap Mílunnar í deildinni í vetur en liðið er í 2. sæti deildarinnar með 6 stig, eins og Stjarnan sem á leik til góða.

Atli Kristinsson var markahæstur hjá Mílunni með 8 mörk, Sævar Ingi Eiðsson skoraði 5, Ívar Grétarsson 3, Ársæll Ársælsson og Gunnar Páll Júlíusson 2 og þeir Árni Felix Gíslason, Magnús Már Magnússon, Gunnar Ingi Jónsson og Ómar Vignir Helgason skoruðu allir 1 mark.

Ástgeir Sigmarsson varði 8/1 skot í marki Mílunnar (40%) og Sverrir Andrésson 7 (30%).

Fyrri greinÞrennt dæmt í gæsluvarðhald eftir innbrotahrinu
Næsta grein„Gamall draumur að rætast“