„Ég ætla að gera betur á næsta ári“

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Mér fannst byrjunin á leiknum ekki okkur lík en ég verð að hrósa strákunum, við lendum fimm mörkum undir og náum að minnka það niður í eitt mark.

Skotin í lokin hjá okkur, ég held að það hafi ekki verið þreyta hjá okkur, Gústi var bara góður í markinu og við vorum að fá fullt af opnum færum. Maður getur alltaf fundið einhverjar afsakanir,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir tapið gegn FH í oddaleik undanúrslitaeinvígisins um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta.

FH vann 26-29 á Selfossi í kvöld og einvígið 3-2.

„Auðvitað er maður svekktur núna en ég vil bara þakka fólkinu hérna. Selfoss á langbesta stuðningsfólkið. Maður sá það líka hvernig þeir þökkuðu strákunum eftir leik. Það er búin að vera frábær mæting hérna og líka í útileikjunum. Þetta er magnað fólk hérna á Selfossi. Ég hef þjálfað á mörgum stöðum og ég verð að segja að það er dálítið sérstakt að þjálfa hér. Þessi stemmning og karakterinn í fólkinu hérna, það er eitthvað sem að kveikir í mér og ég ætla að gera betur á næsta ári,“ bætti Patrekur við.

Þurfa Selfyssingar þá að fara að kaupa skáp undir bikarana?

„Auðvitað er alltaf markmiðið að vinna titla. Ég hef komið Austurríki þrisvar á stórmót og margir töldu það ekki mögulegt. En ég náði því og ég hugsa stórt og félagið gerir það líka.“

Góð tenging milli leikmanna og áhorfenda
Stemmningin í Vallaskóla var algjörlega mögnuð í kvöld og húsið lék á reiðiskjálfi þegar spennan var sem mest.

„Ég hef sagt það áður að það er góð tenging milli leikmanna og áhorfenda. Við erum lið sem er ekki mikið með aðkomumenn og það er búið að vera að búa þetta til í mörg ár. Þó að Selfoss hafi verið mestan hluta síðustu ára í 1. deildinni þá hafa menn alltaf haldið tryggð við þessa línu. Á meðan maður horfir til dæmis í liðin sem eru að fara að spila í úrslitum, það eru ekkert allt heimamenn. En það er bara önnur aðferð og ef þú getur og vilt fara þá leið þá ferð þú hana.“

Margir vilja koma í þetta umhverfi
Einhverjar breytingar verða væntanlega á Selfossliðinu fyrir næsta tímabil og Patrekur segir að það þurfi að skoða vel að styrkja liðið.

„Við verðum að átta okkur á því að Teitur Örn er að fara til Svíþjóðar og ég sé í akademíunni að þeir eiga aðeins í land með það að koma inn. Þannig að við þurfum að skoða hlutina, við þurfum að bæta við. Ég horfi fyrst og fremst á það sem ég er að þjálfa með Erni Þrastar í akademíunni. En ég veit og ég hef heyrt það að það eru margir sem vilja koma í þetta umhverfi því að hér er unnið mjög hart og fagmannlega á öllum sviðum,“ segir Patrekur.

Meira afrek en sigrarnir með Haukunum
„Það er margt gott á þessu tímabili. Mig langar til þess að þakka þjálfarateyminu mínu. Það er oftast ég sem fer í þessi viðtöl en Grímur Hergeirs, Þórir Ólafs, Jóndi og jafnvel fleiri, meira að segja Þórir Hergeirs á kantinum og Einar Guðmunds, Jóhann Ingi Gunnars… það eru svo margir sem koma að þessu. Ég hef þjálfað mjög vel mönnuð lið. Ég ætla ekki að gera lítið úr því þegar ég var hjá Haukum, ég vann Íslandsmeistaratitil, bikarmeistara- og deildarmeistara. En ég held að þetta sé meira afrek sem ég hef unnið þetta tímabil með Selfoss. Maður vill alltaf vinna titla og það var yndislegt með Haukunum en þetta er erfiðara verkefni og mér finnst við hafa gert það mjög vel þrátt fyrir tapið í kvöld,“ sagði Patrekur ennfremur.

Sleikjum sárin og byrjum svo aftur að æfa
Það hefur gengið á ýmsu hjá Selfyssingum í vetur en liðið sló í gegn í deildinni og kom mörgum spámönnum á óvart. Patrekur segir að úrslitakeppnin hafi verið frábær innspýting í handboltann á Selfossi eftir annars góðan vetur.

„Þessi úrslitakeppni er búin að vera frábær fyrir félagið. Maður finnur að þetta er svipuð stemmning eins og í gamla daga þegar ég var með KA. Það er mikill kraftur í þessu og þetta eru miklir íþróttamenn þessir strákar og ég held að margir hafi viljað að við færum í úrslit. En ég vil bara óska FH-ingum til hamingju og velfarnaðar í úrslitarimmunni við ÍBV. En maður er tapsár. Það er gott að ég er tapsár, auðvitað eru tilfinningar í þessu. Við gáfum allt í þetta og hefðum getað unnið þennan leik. Við erum alls ekki síðra lið en FH. Við erum í topp þremur í deildinni og nokkrum sekúndum frá deildarmeistaratitli, förum í undanúrslit í bikarkeppninni þó að það hafi ekki verið neitt skemmtiefni. Það voru ekki bestu leikirnir okkar. Þegar ég tók við liðinu var það tveimur stigum frá falli úr deildinni og þar á undan mörg ár í 1. deild, þannig að ég er mjög stoltur af þessari vinnu í ár, en nú er mjög mikilvægt að sleikja sárin í einhverja daga og byrja svo bara aftur að æfa,“ sagði Patrekur Jóhannesson að lokum.

Fyrri greinD-listinn leggur til íbúakosningu um miðbæjarskipulagið
Næsta greinVallaskóli nötraði og skalf