Efnilegir knattspyrnumenn

Mikið líf er hjá yngri flokkum í knattspyrnudeild Hamars í Hveragerði. Strákarnir í 6. flokki náðu frábærum árangri á Njarðvíkurmótinu sem haldið var fyrir skömmu.

Fyrir áramót tóku 7.-5. flokkur þátt í Akranesmóti sem haldið var í höllinni þar. Þar stóðu Hamarsliðin sig með prýði og var gaman fyrir strákana að fá að spila inni í knattspyrnuhöll.

Strákarnir í 6. flokki tóku svo þátt í Njarðvíkurmóti sem haldið var í knattspyrnuhöllinni í Reykjanesbæ þann 12. jan. Þar léku þeir við lið úr öðrum mun stærri bæjarfélögum. Strákarnir stóðu sig frábærlega og unnu sinn riðil örugglega. Spiluðu þeir svo undanúrslitaleik við Keflavík sem voru á heimavelli og unnu Hamarsstrákarnir okkar 1-0. Eftir æsispennandi úrslitaleik við ÍR réðust úrslitin í vítakeppni en þar varð Hamar að lúta í lægra haldi en árangurinn er samt mjög glæsilegur.

Verkefnin framundan eru svo nokkur. 7. flokkur fer í skemmtiferð til Þorlákshafnar, 5. fl keppir á Íslandsmótinu í futsal 30. jan og svo á Njarðvíkumótinu þann 13. febrúar.

Þjálfari drengjanna er Jónas G. Jónsson íþróttakennari og er greinilegt að hann er að vinna mjög gott starf við þjálfun á efnilegum knattspyrnumönnum í Hveragerði.

Fyrri greinGerbreytt fjárhagsáætlun
Næsta greinFéll þrjá metra úr stiga